28 júní 2005

Fjölmiðlar eru eitt aðalumfjöllunarefni fjölmiðla þessa dagana. Ef ég hef skilið málið rétt, þá eru fjölmiðlar fjórða valdið í samfélaginu af því að þeir eiga að veita stjórnvöldum og opinberum embættismönnum aðhald, upplýsa almenning um það sem hann annars hefði ekki minnstu hugmynd um. Þeir eiga að vera með nefið ofan í öllu, láta okkur vita um allt sem okkur varðar. Við erum svo fegin að þeir gera það, treystum því að þeir séu á vaktinni. En getum við treyst þeim? Í dag finnst manni þegar maður hugsar um fjölmiðla að þeir séu fyrst og fremst að standa vörð um sjálfa sig. Svo eru rógberar og aðrir ógæfumenn sífellt að koma upp með nýjar leiðir til að stunda sinn rógburð og illindi, nú orðið undir merkjum blaðamennsku. Hvað gefur okkur t.d. til kynna að Eiríkur Jónsson sé blaðamaður? Er það sú staðreynd að hann hundeltir þá sem hann heldur að hafi lent í einhverju nógu krassandi í sínu einkalífi til að við hin viljum slefa yfir því og hann haldi vinnunni? Eða sú staðreynd að hann skrifar viðtöl burtséð frá því hvort honum hafi tekist að fá menn til að tala við sig eða ekki? Er það jafnvel það að hann notar útvarpsþætti sína til að lítillækka þá sem honum geðjast ekki persónulega, t.d. fyrrverandi konu sína og barnsmóður?
Ekki veit ég það, en eitt veit ég, ef EJ er blaðamaður þá hef ég alveg misskilið það fag.

23 júní 2005

Víkingar stóðu undir nafni í kvöld í Kópavogsdalnum. Þeir spiluðu eins og karlmenn, voru miklu betri en hundslappir Blikar. Ekki nokkur leið að sjá hvernig Kópavogsbúarnir hafa farið að að ná í öll þessi stig, þeir eru með 7 stiga forskot á Víkinga í 1.deild. Alltaf í boltanum.
Á morgun er kveðjupartý Jóhönnu vinkonu minnar í vinnunni. Við höfum baslað saman hjá Íslandspósti frá árdögum fyrirtækisins. Síðsumars árið 1999 birtist hún í deildinni minni og mér sagt að koma henni inn í málin, hún ætti að verða nýi sap-sérfræðingurinn okkar. Að klukkutíma liðnum höfðum við nánast æviisögu hvor annarrar, þetta small bara einhvern veginn saman. Á þeim 6 árum sem liðin eru síðan hefur vinskapur okkar vaxið, það er ekki oft á lífsleiðinni sem maður eignast slíka vini. Sendi henni mínar bestu óskir um góða tíma í nýju starfi hjá Samskipum, hún á eftir að koma þeim á óvart þar. Go Jóhanna!
Best að fara að halla sér á koddann, vinna í morgunsárið.
Aloha.

20 júní 2005

Fótbolti aftur í kvöld, meiri fótboltasýkin. Það er bara svo gaman að þessu! Við fórum í Mosfellsbæ að horfa á Víkinga spila við Aftureldingu, ekki mikil snilld þar á ferðinni, því miður. Víkingar spiluðu afleitlega, en það gengur vonandi betur næst. Manni finnst eins og þeir nenni þessu varla, erfitt að átta sig á andleysinu sem virðist ríkja í hópnum. Vona að þeir finni samt út úr þessu.
Gott að komast í bað og ból þegar dagur er að kvöldi kominn, ætla að reyna að sofna sem fyrst og hjóla í vinnu að morgni. Svo er grillveisla hjá foreldrum Ernu D á morgun, daman á afmæli og það er boðið til veislu í Birkigrundinni. Hlökkum til. :o)

Góða nótt.

19 júní 2005

Til hamingju með daginn allir! Í 90 ár hafa íslenskar konur haft kosningarétt, hugsa sér það, enn er til fólk sem lifði þann tíma þegar konur fengu ekki að kjósa. Við fögnum að sjálfsögðu öllu jafnrétti meðal manna, hverju nafni sem þau nefnast.
Það var ekki mikið jafnrétti á Leiknisvelli í kvöld, þangað komu KR-ingar með ´föruneyti og pökkuðu heimamönnum saman í lítinn kassa. Unnu 6-0. Það var gaman að koma í ghettoið, heimamenn bara sprækir og reyndar óheppnir að leikurinn fór í þessa átt. Svo rigndi alveg svakalega.
Jæja, best að drattast í rúmið, vinnudagur á morgun.

14 júní 2005

Mikill blíðviðrisdagur að kveldi kominn, tími kominn til að ganga til náða. Það eina sem er erfitt við þessa fallegu björtu sumardaga er að sofa fram yfir kl 5 að morgni þegar sólin byrjar að skína.
Annars heldur pósturinn áfram að streyma í Póstmiðstöðina, allt gengur sinn gang þó helmingur landsmanna sé kominn í sumarfrí, merkilegt nokk.
Andleysið er algjört þessa stundina, leggjum árar í bát og bjóðum góða nótt.

13 júní 2005

Hér á hinu illræmda suðvesturhorni hefur veðrið leikið við okkur í dag. Ég fór í vinnuna eftir 2ja vikna frí, það var ekki laust við að það tæki svolítið á. Svo kláruðum við Jolli hellulögnina hér í kvöld, þá er henni endanlega lokið í bakgarðinum. Allt annað að sjá ´etta mar!
Frumburðurinn kom með nýju fótboltaskóna sína, þeir eru gjörsamlega geggjaðir! Sá fær að standa sig í þeim, maður lifandi.
Nú er skrokkurinn orðinn lúinn eftir allan dugnaðinn, best að reyna fara að sofna, ekki veitir af fyrir hjólreiðar morgunsins.
Sofið rótt....zzzzzzzzzzzzzz

12 júní 2005

Fór á skóútsöluna og nældi mér í 2 pör af skóm fyrir skít á priki. Það er alltaf góð tilfinning að kaupa 10 þús króna skó fyrir ca 10% af upprunalega uppsettu okurverði. Mér finnst ég einhvern veginn hafa leikið á einhvern?
Hér var hellulagt í gær, yngsti snillingurinn minn fór í málið með mér og það gekk svo ljómandi vel. Nú verður lögð lokahönd á það verk í dag, mikið gott þegar það er búið. Þá er nánast ekkert eftir annað en að huga að gróðri, mikið skemmtilegri vinna það.
Hér voru allir synirnir í mat í gær, grillað svínakjöt, svo birtist Óli og borðaði óvænt með okkur. Símon fór að spila með Miseríinu og Daníel að hlusta, en hingað komu svo nágrannarnir og við sátum öll úti að spjalla þar til það var orðið of seint að ná að fara og hlusta. Oh well, can´t win ´em all!
Best að fá sér kaffi og rist áður en hafist verður handa við að klára hellulögnina, ekki veitir af!
Later.

11 júní 2005

Laugardagsmorgunn, kaffi, ristað brauð og rólegheit. Kláraði að mála ruslatunnuskýlið í gær, dugleg stelpa. Gutti fékk að vísu flogakast á stéttinni á meðan ég málaði, aumingja kallinn. Jóel var sem betur fer heima, ég á erfitt með mig þegar þetta skeður. En hundurinn var fljótur að jafna sig, var jafngóður eftir ca 2 mínútur, þetta virðist ekki hafa verið mjög alvarlegt kast. Svo var hann ekki eins þreyttur eftir það, eiginlega bara mjög sprækur. Vonum bara það besta, maður getur víst ekkert stjórnað þessu.
Víkingar unnu HK í gríðarlegum baráttuleik, slagur í nærri 100 mínútur (dómarinn ætlaði aldrei að flauta leikinn af!) um hvern bolta. Sérstaklega ánægjulegt að sigra í svoleiðis leik, það hefði getað dottið hvorum megin sem er. Daníel fær lægstu einkunnina í liðinu á vikingur.net, mér finnst það nú full harkalegt, en það eru gerðar miklar kröfur til hans og það er ekki slæmt.
Ég er að hugsa um að drífa mig á skóútsölu í Faxafeninu, það væri ekki slæmt að ná sér í góða skó fyrir sáralítinn pening. Hvet alla sem vettlingi geta valdið að kíkja á það!
Bless í bili.

07 júní 2005

Gúmoren!

Held það sé kominn tími til að krota hér eitthvað nýtt. Skelfileg leti ráðið ríkjum í þessum málum, skömm að segja frá því. Hér hef ég verið í fríi heima, var síðustu viku og verð þessa líka, þvílík dýrð og dásemd! Síðasta vika fór auðvitað mest í að vera úti í sólinni, grilla og allt sem góða veðrinu fylgir. Til allrar hamingju fór svo aðeins að rigna í þessari viku, þá fór ég að verða duglegri. Í dag er ég t.d. búin að fara og ná í 4 poka af sandi, 40 kg stykkið, drusla þeim út í garð og leggja slatta af hellum! Svo fór ég í Sorpu með slatta af rusli sem ég hef safnað mér af miklum myndarskap. Keypti mér svo forláta spegil á stofuvegg, vantaði alltaf á einn vegg hér. Festi herlegheitin líka upp. Inn á milli horfði ég svo á eina mynd með Daníeli hér í eftirmiðdaginn, Wimbledon, bara nokkuð skemmtileg ræma. Mér tókst líka að sækja Jóel, koma við og klára skúringarnar, eyða klukkutíma úti með hundinn og nú er ég sko sest í sófann og hreyfi mig ekki meira í kvöld! Ætla að horfa á Everwood og svo einhverja mynd sem ég er með á video.
Nú verð ég sko duglegri að blogga í framhaldinu, lofa því.