30 júlí 2005

Þá erum við búin með ættarmótið góða á Þingeyri. Það tókst bara mjög vel, allir glaðir með það, nema bróðirinn sem flaug frá Frankafurðu til að koma og stýra veisluhöldunum en sat fastur í Reykjavík í 2 nætur án þess að komast vestur vegna þess að það var ekki hægt að lenda á Ísafirði vegna þoku! Frekar dapurlegt ferðalag það... En, ættarmótið sem sagt sucess. Allir sýndu afkvæmin sín og sögðu sögur af ömmum og öfum og báru saman bækur sínar. Gott að hitta ættingja og átta sig á upprunanum, það hlýtur að skýra ýmislegt.
Jæja,ég var í mat í kvöld og fékk grillaðan skötusel ásamt fleiru á teini, svakalega gott. Verð að fara að halla mér á koddann, enda komin nótt.
Góða nótt.

10 júlí 2005

Skrítið hvað lífið hér stjórnast af veðráttunni. Þegar sólin skín á sumrin eru allir úti við, fólk dundar í görðunum sínum, leikur við börnin, fer í gönguferðir, grillar, spjallar við nágrannana. Svo þegar veðrið er eitthvað risjótt sést varla hræða á ferli. Þessi helgi var þannig. Veðrið var alls ekki svo slæmt, alla vega þurrt hér í höfuðborginni, ég er búin að vera á ferðinni á hjólinu og varla mætt nema harðsnúnustu hjólreiðaköppum á ferðum mínum. Þetta vekur endalaust furðu mína. Ég velti fyrir mér hvernig landinn myndi bregðast við ef hryðjuverkamenn réðust á okkur. Held við myndum öll skríða inn í holurnar okkar og ekki fara spönn frá rassi. Draga fyrir gluggana. Nei annars, ég veit það ekki. Segi nú bara svona.
Held ég ætti að halla mér bara á koddann og hætta þessu rugli.
Later yall.

04 júlí 2005

Ég var að horfa á einhvern æsilegasta fótboltaleik sem ég hef séð. Víkingar tóku á móti KR í bikarkeppninni, yfirspiluðu þá allan nánast leikinn en tókst ekki að nýta færin sín. Eftir framlengingu, vítaspyrnukeppni og bráðabana unnu KR druslurnar, lygileg hundaheppni sem fylgdi þeim í kvöld. En svona gengur þetta bara, ekki alltaf jólin eins og maðurinn sagði.
Dagurinn annars yndislegur, blíðviðri og allt í lukkunnar velstandi. Ástandið í þessu landi okkar virðist með ólíkindum gott, þ.e. atvinnuástandið, við í Póstmiðstöð erum í stökustu vandræðum með að finna fólk til að vinna. Unga fólkið gerir miklar kröfur, getur sko ekkert verið að vinna til kl 8 á kvöldin eins og ein sagði svo ágætlega áður en hún sagði upp sumarvinnunni: "Ég er sko vön að hitta vini mína klukkan 8 á kvöldin, get ég ekki fengið að hætta aðeins fyrr?"

Jæja, þýðir ekkert að vera að pirra sig á þessum litlu bjánum, bítum á jaxlinn og höldum áfram.

Góða nótt.