15 febrúar 2005

Árið 1975 (ef ég man rétt) leit dagsins ljós "nýtt óháð dagblað." Þetta var spennandi, sú sem þetta skrifar var þá í menntaskóla, það var haust, ég var að vinna í bóksölunni, veturinn að byrja og fullorðna lífið framundan. Blaðið lofaði góðu, var svo ferskt við hliðina á Tímanum, Þjóðviljanum, Alþýðublaðinu og Mogganum, var óháð þessum gömlu flokkum. Ekki leið þó langur tími áður en í ljós kom að blaðið var óháð fleiru en þessum leiðinda stjórnmálaflokkum. Það reyndist óháð öllu sem kalla mætti siðferðislega ásættanleg fréttamennska, fjallaði mjög "frjálslega" um menn og málefni sem efst voru á baugi í þá daga. Það vill svo til að sú ömurlega fréttamennska (ef það er kallað það) sem þar tíðkaðist snerti persónulega mig og mína nánustu og því birtist kannski einhver biturleiki í þessum pistli. En það er aukaatriði, það sem er verst í þessu máli er að frá þeim tíma höfum við flest þroskast og vitkast (mismikið kannski...) en dagblaðið sem fæddist þetta haust fyrir 30 árum hefur ekkert breyst! Í gegnum tíðina hefur það skipt um eigendur, nafnið nokkrum sinnum fengið ný blæbrigði, en í dag eru skrif þess lélegri en fyrir 30 árum ef eitthvað er.
Ég á enn fyrsta eintakið af þessu einhvers staðar í geymslunni, það fer í ruslið ef ég finn það. Það hét Dagblaðið fyrir 30 árum, heitir DV í dag.

12 febrúar 2005

Heilir og sælir lesendur góðir, báðir tveir. Við fórum að syngja fyrir ameríkanana á vellinum í gær, það var hin áhugaverðasta ferð fyrir margra hluta sakir. Ballið byrjaði í hliðinu, þar sem 20+ söngvarar í GR þurftu að troða sér inn í skýli íslenskra lögreglumanna (sem rúmar með góðu móti ca 5 gesti), gera grein fyrir persónu sinni með greiðslukortum eða ökuskírteinum. Fylla síðan út lítinn gulan miða, sem er heldur minni en sá sem þú færð þegar þú hefur rennt kortinu þínu í posa, passa þann miða eins og sjáöldur augnanna, því ef hann týndist yrði okkur ekki sleppt út úr hliðinu aftur! Yrðum dæmd til að ráfa um auðnir miðnesheiðarinnar ellegar stræti herstöðvarinnar og hlusta á ameríkönsku allt til enda. Hvílík örlög. Svo kom í ljós að tveir kórfélagar voru ekki með neinar sannanir fyrir því að þeir voru ekki hryðjuverkamenn frá suðaustlægari löndum, en af því að það lá vel á íslenskum þjónum laganna þann daginn voru þessir aðilar ekki fangelsaðir, það mál endaði reyndar þannig að gestgjafi okkar, kirkjunnar þjónn á velli Keflavíkur, gekk í málið og heimti þau úr skýlinu svo þeir gætu sungið með okkur. Við reyndumst svo þrefalda fjölda samkomugesta, en það sýndi sig að það er ekki allt mælt í fjölda, nei ónei. Lífið í þessum fáu hræðum sem við sungum fyrir var þvílíkt að við vorum ekki komin niður á jörðina þegar við mættum á æfingu í morgun. Vorum enn að hrópa klappa og hoppa. Einn gesta sem við tókum með okkur úr höfuðborginni hafði á orði að hann hefði aldrei séð slíkt líf í kórnum fyrr, hann er búinn að fylgjast með flestum okkar uppákomum. Þannig að ferðin var hin besta þegar upp var staðið, losaði heilmikið um kórfélaga. Fyrir utan að samkoman var mjög lifandi og gefandi, amerísk kona predikaði, heitir Veronica Pope, hún flutti mál sitt af mikilli festu öryggi og trúarhita.
Læt þetta duga í bili.

06 febrúar 2005

bolla bolla...

Bolludagur á morgun, hann hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, kannski tengt nafninu mínu? Ég veit það ekki. Hér er siður að klára bolludaginn nánast á sunnudegi, allir út um allt á mánudögum. Þó er alltaf einhver afgangur, vona að kátir piltar stingi sér í ísskápinn á morgun og klári hann.
Veðrið er svo ljótt, nú er maður þakklátur að þurfa ekki að fara út úr húsi. Héðan fór fólk að skælast í bíó í kvövövöld, mér óskiljanlegt. Maður heyrir ekkert í veðrinu á gluggum þar, svo þarf maður í ofanálag að fara inn og út úr húsum! Vona að myndin sé þess virði. Er það sennilega.
Farin í bað, heyrumst síðar gott fólk.

05 febrúar 2005

Lördag aften.

Það hefur lítið farið fyrir bloggun á þessari síðu undanfarið, einfaldlega ekki unnist tími til þess arna. Fyrir hugsanlega lesendur mína mæli ég með að þeir kíki á síður Símons og Daníels, simonsegir.blogspot.com og dannihjalta.blogspot.com. Þeir eru sniðugir strákarnir.
Hér er búið að renna niður pizzunni og menn sestir niður við dvd myndir, cellular held ég að verði fyrri mynd kvöldsin. Það ku vera spennumynd hin besta, sjáum til hvað þessi hér hangir lengi uppi yfir því...
I bid u good night.