12 febrúar 2005

Heilir og sælir lesendur góðir, báðir tveir. Við fórum að syngja fyrir ameríkanana á vellinum í gær, það var hin áhugaverðasta ferð fyrir margra hluta sakir. Ballið byrjaði í hliðinu, þar sem 20+ söngvarar í GR þurftu að troða sér inn í skýli íslenskra lögreglumanna (sem rúmar með góðu móti ca 5 gesti), gera grein fyrir persónu sinni með greiðslukortum eða ökuskírteinum. Fylla síðan út lítinn gulan miða, sem er heldur minni en sá sem þú færð þegar þú hefur rennt kortinu þínu í posa, passa þann miða eins og sjáöldur augnanna, því ef hann týndist yrði okkur ekki sleppt út úr hliðinu aftur! Yrðum dæmd til að ráfa um auðnir miðnesheiðarinnar ellegar stræti herstöðvarinnar og hlusta á ameríkönsku allt til enda. Hvílík örlög. Svo kom í ljós að tveir kórfélagar voru ekki með neinar sannanir fyrir því að þeir voru ekki hryðjuverkamenn frá suðaustlægari löndum, en af því að það lá vel á íslenskum þjónum laganna þann daginn voru þessir aðilar ekki fangelsaðir, það mál endaði reyndar þannig að gestgjafi okkar, kirkjunnar þjónn á velli Keflavíkur, gekk í málið og heimti þau úr skýlinu svo þeir gætu sungið með okkur. Við reyndumst svo þrefalda fjölda samkomugesta, en það sýndi sig að það er ekki allt mælt í fjölda, nei ónei. Lífið í þessum fáu hræðum sem við sungum fyrir var þvílíkt að við vorum ekki komin niður á jörðina þegar við mættum á æfingu í morgun. Vorum enn að hrópa klappa og hoppa. Einn gesta sem við tókum með okkur úr höfuðborginni hafði á orði að hann hefði aldrei séð slíkt líf í kórnum fyrr, hann er búinn að fylgjast með flestum okkar uppákomum. Þannig að ferðin var hin besta þegar upp var staðið, losaði heilmikið um kórfélaga. Fyrir utan að samkoman var mjög lifandi og gefandi, amerísk kona predikaði, heitir Veronica Pope, hún flutti mál sitt af mikilli festu öryggi og trúarhita.
Læt þetta duga í bili.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Gaman að þessu. Gott að enginn endaði í jailinu!

mánudagur, 14 febrúar, 2005  

Skrifa ummæli

<< Home