16 júní 2006

Summer holiday.

Síðasti dagur í fríi í bili, ég hef aldrei fengið annað eins skítaveður að díla við í sumarleyfi fyrr. Sennilega gott á mig, alltaf verið sunshine and lollipops þessar fyrstu vikur júní. En lífið er sem betur fer annað og meira en gott veður, annars værum við Íslendingar í vondum málum. Ég er búin að hafa það bara mjög gott, horfa á HM, hjóla, stunda garðyrkju og hver veit hvað. Bara vera til.
Víkingar töpuðu fyrir KR í gær, það var eiginlega mjög gott á þá hvernig sem á það er litið. KRingar misstu Gunnlaug Jónsson af velli í miðjum leik og það er auðvitað tækifæri sem snjallir skipuleggjendur hópleikja gera tilraunir til að nýta sér, það að vera einum fleiri á vellinum. En hvað gerði hinn þéttvaxni, þvoglumælti stjórnandi fossvogsmanna? Ég veit það ekki, ef einhver sá hann gera eitthvað þá má hann láta mig vita. Niðurstaðan? 10 KRingar unnu leikinn og bara verðskuldað.
Tilþrif leiksins áttu án efa varamennirnir sem stunduðu ballettæfingar við endalínu vallarins, áhorfendur héldu að Bolshoj ballettinn væri kominn í bæinn. Enda er þar um aðalgæja félagsins að ræða sem eru af óskiljanlegum ástæðum að slíta spýtunum í varamannaskýlum úrvalsdeildarliða landsins og fá flísar í rassinn og hvaðeina. Burt með bolluna bullandi Gylfason og það sem fyrst og hana nú.

06 júní 2006

Til hamingju með daginn, kóngurinn á afmæli í dag. Ég er enginn sérstakur aðdáandi Bubba, men Herre Gud i himmelen! Hann ekki bara fyllir Laugardalshöllina með þessum afmælistónleikum sínum, heldur eru þeir sýndir í beinni á Stöð2 og útvarpað beint á Bylgjunni. Þvílíkur töffari, tæki ofan hattinn minn ef ég væri með einn. Og þvílíkt form á kallinum.
Nú verður gert örlítið hlé á vinnu, slappað af í nokkra daga. Mikið rosalega verður það gott... vona bara að aðeins birti til fljótlega, eða að það stytti upp? Ekki farið fram á mikið hér.

03 júní 2006

Við erum öll stödd í mismunandi veröld. Allir eiga sína eigin veröld. Það er magnað. Við deilum lífinu með okkar nánustu og sjáum aldrei alla hluti alveg eins, sjáum ekki einu sinni alltaf sömu liti. Jafnvel þó við séum alin upp á sama heimilinu, hjá sömu foreldrunum, höfum gengið í sömu skólana, jafnvel í sömu fötunum... sama myndin blasti alltaf við okkur þegar við komum út úr húsinu að morgni, en við sáum aldrei öll það sama. Því er nauðsynlegt að hlusta, heyra hvað það er sem hinir eru að segja, hvað þeir sjá, þá hlýtur myndin sem við sjáum að verða litríkari og fyllri, ekki satt? Það er þvílík hönnun á bak við sköpun mannsins, ég get aldrei skilið hversu mikla trú fólk hefur sem trúir að sprenging hafi komið þessu öllu af stað... það er bara absúrd hugmynd.