30 desember 2004

Nú er úti veður vott...

Miðvikudagurinn var aldeilis busy, það var gott að leggjast á koddann í gærkvöldi. Okkur gekk vel í Íslandi í bítið, ótrúlegt hvað við litum vel út svona nývöknuð! Svo var partý í gærkvöldi, kínamatur og fínerí. Árný átti líka afmæli í gær og ég kíkti þangað, það er alltaf svo jólalegt hjá þeim.
Það er svo fallegt að horfa út um gluggann hér, birtan er u.þ.b. að sigra myrkrið þessa stundina, svakalega er veðrið búið að vera undarlegt undanfarnar vikur. Ekki lítur það vel út fyrir skotglaða borgarbúa, útlit fyrir að tugþúsundirnar fari fyrir lítið upp í snjómuggu eða fjúki vestur á snæfellsnes. Það njóta þeirra þá kannski einhverjir þar, hver veit?
Heyrði að Kiefer Sutherland væri staddur hér, hlakka til að heyra sögurnar af pöbbunum, af kvenfólkinu sem reyndi að heilla kappann. Ekki hægt annað að brosa út í annað þó þetta sé auðvitað frekar sorglegt.
Jæja, hlökkum til að kveðja gamalt og annars ágætt ár, til þess að heilsa nýju, því nýtt ár þýðir ný tækifæri, ekki satt?

27 desember 2004

Þriðji dagur jóla.

Lítið verið bloggað hér undanfarið, busy, busy... Jólin voru skemmtileg, og gjafirnar magnaðar! Fyrir utan 3 bækur og aðra fallega og góða hluti fékk þessi hérna video-dvdspilara! Engin smá græja það.
Þá eru áramótin framundan, brúðkaup í fjölskyldunni á gamlársdag. Okkur hér í Tindaseli 1f leiðast persónulega áramótin, við erum í felum undan hávaðanum í skoteldunum, þ.e. ég og sá ferfætti.
Maður er óttalega andlaus eitthvað, var í kaffiboði milli vinnu og vinnu hjá Lilju systur, indælt og gott. Það var setið við arininn og drukkið kaffi og púrtvín með. Held ég hafi aldrei smakkað það áður, bara nokkuð gott. Skúringarnar gengu vel, menn hafa ekki verið mikið að vinna á Stöð2 í dag, vonandi verða þeir alveg rólegir framyfir áramótin. Á miðvikudagsmorguninn er meiningin að kórinn mæti í Ísland í bítið, taki þar 2-3 lög og eitthvað verður spjallað líka. Verður vonandi skemmtilegt.
Bless í bili.

15 desember 2004

Er líða fer að jólum.

Nú fer að styttast í jólin, snjórinn kominn og allt. Ég meira að segja búin að kaupa eina eða tvær jólagjafir, og þá er nú mikið sagt.
Hér í vinnunni er gjörsamlega allt að verða vitlaust, allir að fara á límingunum. Mikið verður gott að komast heim.

12 desember 2004

Jæja,

eins og snarpir lesendur mínir hafa séð, (einn lesandi ennþá...) þá var mikill fögnuður fólginn í því að vera búin að þrífa kvikmyndahúsið í fyrrinótt. Var rétt skriðin í bælið um hálfri stundu eftir miðnætti í gærkvöld, þegar síminn hringdi og ég spurð hvort ég ætti ekki að vera mætt í kvikmyndahúsið? Það fór auðvitað nettur hrollur um mig, svaraði ísköld neitandi. Nú? Spurði hann, mér var sagt að þú yrðir um helgar hér framvegis? Á þeim tímapunkti hefði enginn getað boðið mér upp á neitt meira óspennandi en það. Vona að hann hringi ekki aftur á næstunni... annars var hann ágætur greyið, bara misskilningur á ferðinni, lack of communication, spilar kannski eitthvað inn í að hann er af erlendu bergi brotinn, nánar tiltekið frá Túnis!
Ég var að horfa á Jólaboð með Hemma Gunn á Channeltwo, fínn þáttur, soldið geldur, vantaði tilfinnanlega Gospelkór Reykjavíkur. Sérstaklega þar sem hann var á playbacki hjá Palla Rós... mistök það.
Búin að baka tvöfaldan venjubundinn skammt af lagköku, sem gjarnan er kölluð brúnt hvítt hér. Kenndi samstarfskonu minni einni að baka hana, hún er uppalin á suðurhveli jarðar, þar tíðkast víst ekki að hafa þessi ósköp fyrir lífinu, eins og að smyrja deigi á fjórar heilar ofnplötur til að leggja þær saman með kremi og skera niður í kökur, held að tímakaupið sé reyndar ekki hátt í þessu. En, þær eru bestar.
By the way, hér er til mikið af afskorningi, hann liggur hér frammi fyrir gesti og gangandi.
Vinnuvika framundan, all good in my hood.

Kærleikur, trú og VON, magnað fyrirbæri.

11 desember 2004

Pop.

Ég eyddi nóttinni í að þrífa bíó. Hljómar ekki eins hræðilegt og það var, get lofað því. Hefur t.d. einhver gert sér grein fyrir því að það er manneskja í því sem næst fullu starfi við að "blása" popcorni úr þessu tiltekna bíói? Þá er allt annað eftir, það þarf að þrífa klósett, skúra klístrað kók upp af gólfum, skafa upp tyggjóklessur, ópal, hlaup, ís, ostasósu... Power to the people who do that for a living!
Jæja, þessi fer að snúa sér að jólaundirbúningi, bakstur og einhver innkaup þessa helgi. Nú fer að verða gaman að þessu!

Friður.



09 desember 2004

ennþá fimmtudagur

Það er ennþá fimmtudagur, þetta er annað hvort í ökkla eða eyra hjá mér, eins og reyndar margt annað. Annað hvort skrifa ég ekki í marga daga eða oft á dag!
Oh well... sjónvarpsupptakan gekk mjög vel, við skemmtum okkur vel. Hér er búið að éta yfir sig af kjúklinga- cesar salati, það var æðislega gott.
Gott að vera heima í kvöld, fara í gott bað og hugga sig.
Friðsælt.

hratt flýgur stund...

Síðast var mánudagur, nú er allt í einu kominn fimmtudagur! Man, time flies when you have fun.
Hér var ég búin að skrifa voða fína klausu, týndi því svo öllu.. ekki alveg búin að læra á þetta.
Jólatónleikar Fíladelfíu voru æðislegir, gæsahúðin gagntók mann sérstaklega þegar Hrönn söng lagið hennar Crystal Lewis.
Nú æðum við í höfuðstöðvar Rúv í dag og tökum upp með hávaða og látum. Herlegheitunum verður svo sjónvarpað þann 18.þ.m. þegar grunlausir landsmenn sitja í rólegheitum og horfa á Gísla Martein.
Allt að gerast hér í Póstmiðstöð, mikið stress að byrja að grípa um sig eins og vera ber þegar húsið er að fyllast af pökkum og bréfum. Spyrjum að leikslokum.

Friður á jörð..

06 desember 2004

Nú.

Mánudagurinn búinn, hundurinn búinn að fá árlega tékkið sitt og sprautu með tilheyrandi skjálfta og stressi. Ég bókstaflega dró hundinn yfir þröskuldinn, hann var ekki mjög tignarlegur við þær aðstæður... En lyftist nú allur upp þegar dýralæknirinn fór að tala við hann, þótti hundurinn með afbrigðum unglegur og vöðvastæltur. Ég er ekki frá því að ég hafi séð hann rétta úr sér þegar hún byrjaði að hæla honum. Gæti verið ímyndun mín. Ekki fréttist enn af bróður mínum, sem hótaði fyrir 3 vikum síðan að gifta sig í lok árs, móðir mín bíður mjög spennt. Vill fyrir alla muni drífa í því að fara að tala um sameiginlega brúðargjöf okkar til þeirra, skilur ekki þessi voðalegu rólegheit yfir málinu. Ég vil endilega bíða eftir að vera boðið í brúðkaupið áður en ég fer að kaupa gjöfina, systir mín vill endilega breyta dagsetningunni á brúðkaupinu. Svona erum við nú misjöfn mannfólkið.
En nú er það bara koddinn.
Góða nótt.


05 desember 2004

sunnudagur..

Jæja. Kominn tími til að gerast bloggari. Góð helgi að verða búin, sunnudagar eru bestu dagarnir. Sérstaklega þegar veðrið er svona eins og í dag, rok og rigning. Kórinn söng í KFUM á söngsamkomu í dag, bara hörkustuð. Troðfullur salurinn, grenjandi stemning. Rosalega er sjónvarpið leiðinlegt á sunnudagskvöldi, bara endalaus bið eftir dauðanum eins og góður maður sagði. Nú er það bara snemma í rúmið, ekkert droll... Voffi fer til dýralæknis á morgun, árlega heimsóknin með tilheyrandi sprautu og ormalyfi, heilmikið stress. Hann er drulluhræddur þegar hann kemur þar inn, ekki ólíkt mér þegar ég kem á tannlæknastofu.

Meira síðar.