30 mars 2006

Það er loksins búið að troða nýrri tönn í grillið, about time too! Veðrið er loksins farið að batna, nú verður bara hjólað í vinnuna á morgun. Það er mjög skemmtilegur ferðamáti, en það er óneitanlega töluvert háð veðri.
Mamma flytur á mánudaginn í grafarvoginn, það verður mikil breyting fyrir alla. Það er búið að vera í nógu að snúast þessa viku og gríðarlegt álag í vinnunni þar sem veikindi starfsmanna virðast engan endi ætla að taka. Ég stilli upp 35 manns á kvöldin og stend uppi með 26-27 kvöld eftir kvöld. Þetta er nú orðið soldið þreytandi... svona getur þetta ekki gengið mikið lengur, það eru held ég allir starfsmenn búnir að fá einhverja flensu. Ein stelpan var í 2 vikur veik og er núna orðin veik aftur! Það er nú ekkert grín ef allir ætla að fara aðra umferð, herre Gud i himmelen!
Jæja, best að drattast í bólið.

24 mars 2006

Það er ekki að spyrja að því, nú lendir það aftur á mér að blogga um íslenska idolið. Ég læt ekki deigan síga, læt gamminn geysa og sé um málið!
Í kvöld er þemað USA og country tónlist. Ég sé reyndar ekki muninn á þessum tveim þemum, eins og kynnar kvöldsins orðuðu það svo skemmtilega. Þeir eru komnir með annað nýtt: flengiði spaðana í stað gefið gott klapp! Sniðugir strákar.
Hljómsveitin Ísafold er pottþétt þarna á bak við.

Ína byrjar. Þau fá frjálst val, velja úr amerísku pop/rokki. Hún syngur lagið “I wanna dance with somebody.” Hún lítur furðulega út með hárlengingar, en bara fín. Hún er æðisleg stelpan. Flottir taktar. Öryggið algjört, svei mér þá. Mætti kannski vera aðeins meiri mýkt hjá henni á köflum í þessu lagi. Þarna fór hún aðeins út af sporinu í upphækkuninni, varð pínulítið skræk. En, ekki hægt að segja annað en þetta var glæsileg frammistaða. Bubbi er mjög ánægður með hana. Sigga notar orð Simons Cowell og segir að Ína hafi X-faktorinn. Palli fékk big time flash-back þegar hann heyrði lagið, hann er rosalega ánægður. Sidney Winston hvað? segir Einar Bárðarson.

Ragnheiður Sara er næst. Hún er soldið væmin greyið. Hún syngur lagið Ben sem Michael Jackson söng ógleymanlega á árum áður. Ekki finnst mér þetta byrja alveg nógu smart hjá henni, pínulítið óstyrk. Svo kemur hún með smá tæknibrellur, það lyftir þessu upp. Merkilegt nokk, byrjunartónarnir hennar eru ekki alltaf nógu öruggir. Reddar þessu þó með fallegum endi. Siggu fannst þetta stórglæsilegt. Palla fannst pínulítið óöryggi í neðstu tónunum, en finnst það bara allt í lagi. Honum finnst hún hafa tekið mestum breytingum keppenda, hún hefði getað breytst í klassíska kellingu. Einar er sammála mér, ekki alveg nógu gott pitch en allt í lagi.

Bríet Sunna ætlar að syngja You are always on my mind. Það er eins gott að það klikki ekki hjá henni, rosalega fallegt lag. Byrjar vel hjá henni, það hljómar eins og hún sé að syngja frá hjartanu. Ég held hún sé að syngja þetta í of lágum dúr, mér finnst hún ekki alveg njóta sín. Nei, mér finnst þetta bara ekki alveg nógu vel sungið hjá henni.
Bubba fannst þetta ekki nógu gott hjá henni, Siggu ekki heldur. Palli segir að fullkomnun sé ekki til, honum finnst hún hafa sýnt hvað mesta framför keppenda. Sagði hins vegar ekkert um lagið. Einari finnst það eigi að flytja lagið svona, fannst þetta æðislegt hjá henni. Það væri æðislegt fyrir þig að vinna þessa keppni, og æðislegt fyrir þessa keppni ef þú vinnur, sagði Einar.

Snorri með Guns and roses lag. Byrjar á einhverjum öskrum, ekki kann ég nú alveg að meta það dæmi. Flautar í einhverja dómaraflautu og hendir henni svo út í sal. Byrjar að syngja, hljómar alveg hræðilega, hreint út sagt. Alltof háir og skrækir tónar fyrir hann finnst mér, hann er betri þegar það er komið út í keyrsluna þó.
Palli segir hann sé með rödd eins og Axl Rose (kann ekki að skrifa það...). Honum finnst hann þó hafa hermt of mikið eftir honum. Bubba finnst virðingarvert að hann skuli hafa lagt í þetta lag, en finnst hann léleg eftirherma. Siggu finnst hann hafa sett líf í þetta, en of mikil kópíering fyrir hennar smekk. Einar segist eini utangarðsmaðurinn við borðið, ósammála öllum. Þetta fannst honum alveg í lagi.

Önnur umferð, og Ína syngur Something to talk about. Fínt hjá henni, sosum engin gæsahúð. Ég skil ekki af hverju hún syngur þetta í svona lágri tóntegund, bara næ því ekki. Hún ræður ekki við neðstu tónana. Sorry, mér finnst þetta hundleiðinlegt lag.
Siggu fannst þetta of djúpt fyrir hana, fannst hún betri í fyrra laginu en allt í lagi. Palli segir að Blóðbankinn ætti að nota hana í auglýsingu, hún gefi alltaf minnsta kosti einn líter af blóði í hverju lagi. Bubba finnst seinni hluti lagsins hafa verið góður, fyrri hlutinn ekki nógu góður. Einar ánægðu með stelpuna. Hún reynist vera í AB- blóðflokki, hlýtur að vera það alsjaldgæfasta í heiminum á eftir AB+.

Ragnheiður Sara flytur lagið Jolene, með Dolly Parton. Hún er flott með kúrekahattinn og byrjar vel. Þetta hljómar vel, hún nýtur sín vel í þessu lagi. Þetta lag ætti líka að vera í hærri tóntegund held ég. Ég er sammála Palla, hún gerir lögin eftir sínu höfði, kóperar ekki Dolly. Bubba fannst þetta brjálæðislega flott. Sigga sammála Palla. Einar ánægður með hana.

Bríet Sunna syngur lagið Blue. Hún jóðlar flott, gerir þetta bara vel stelpan. Ég held hún sé bara ekta country kelling.
Ógeðslega flott hjá þér segir Bubbi. Palli er ánægður með jóðlið, ég er sammála honum. Sigga segist vera bara öfundsjúk, hún geti ekki jóðlað. Einar segir að hún sé langbest í kvöld.

Þá er það bara Snorri með John Denver lagið, Annies song. Bara fallegt hjá Snorra, virkilega fallegt. Palla fannst þetta gott, sammála honum. Bubbi ánægður með þetta líka, hann segir þetta hafa verið hans allra besta frammistööðu. Sigga heldur að nú hafi hann brætt allar húsmæður bæjarins. Sammála henni. Einar rövlaði eitthvað, heyrði ekki hvað hann sagði, en hann var ánægður með hann.

Ég held að Snorri detti út núna, einfaldlega af því stelpurnar eru allar betri söngvarar en hann. Svo er hann ekki eins likable eins og þær heldur. Sjáum hvað setur, komnar auglýsingar......
Ég verð víst að éta þessa spá oní mig strax, hann er sá fyrsti sem er sendur í sófann, heldur áfram. Ragnheiður Sara er dottin út. Úff, engin leiðinda þakkarræða og yfirlýsing um að hún sé sko ekki búin að syngja sitt síðasta. Rosalega er ég fegin. Svo syngur hún Ben aftur, og miklu betur en áður, það er alltaf þannig, spennan farin úr henni. Fantafín söngkona, við eigum örugglega eftir að heyra meira í henni. Ég spái jólaplötu frá henni í ár.

Kveð í bili, lengsta blogg í heimi.

18 mars 2006

Sæl og glöð og komin heim. Eitt það besta við ferðalög er að koma heim aftur. Sammála?
Nú er herinn loksins að fara, en eins og maðurinn sagði, farið hefur fé fegurra! Skrítinn heimur.
Ég er alveg tóm núna, get ekki blaðrað meira í bili.
Mamma Vestarr.

16 mars 2006

Heia Norge!! Hér ligg ég á hótelherbergi í Oslo eftir ágætan dag hér. Í gær var þriggja landa dagur, eins og vinkona mín hér kallaði það, við flugum snemma morguns til Köben, seinni partinn til Oslo eftir heilmikil hlaup og lítinn svefn og vorum vel þreyttar þegar við komumst hingað. Við þurftum að enda með því að þrasa við einhverja undarlega leigubílstjóra um verð til að komast á hótelið og þá var okkur öllum lokið. Annars er ég að fíla þetta bara vel, maður skilur ótrúlega mikið tungumálin þeirra og það er svo fyndið að horfa á þau öll babla einhvers konar skandinavísku saman hér; Svíar, Finnar og Norðmenn, meira að segja ein hér frá Álandseyjum. Áttum skemmtilegt kvöld á frönsku brasseríi og á einhverjum pöbb á KarlJohansgötu á leiðinni heim. Við íslensku skúturnar erum búnar að hlæja heil ósköp, það er ekki að spyrja að því.
Á morgun er þrammað í skoðunarferð um norska póstmiðstöð og síðan bara í flývemaskínuna til Köben aftur. Við reiknum svo með að fá okkur góðan kvöldverð í þar og fljúgum svo bara heim á laugardagsmorgun og verðum vel sáttar við það.
Ég get nú ekki annað en hrósað ferðafélaga mínum Dagnýju, ég hafði sosum ekki áhyggjur af öðru en að hún væri í lagi, en hún reynist ein alskemmtilegasta kona sem ég hef hitt. Ótrúlega gaman að kynnast fólki eins og henni.
Mamma Vestarr kveður í bili. ;o)

10 mars 2006

Svona bara af því að Idol gagnrýnendurnir sem eru vanir að sitja hér og blogga um íslenska idolið eru illa fjarri góðu gamni, ætla ég að gera mitt besta til að lýsa því sem fyrir augu og eyru ber.

Snorri byrjar, og hann bara fer í gegnum þetta. Who would have thunk? Hann lítur rosalega vel út, flott föt, gott fifties look. Hann hefur notað háa tóna allan tímann, nú söng hann bara á lágu nótunum og olli því bara vel. Gleðin skein ekki beint út úr honum þegar hann söng “Fly me to the moon,” hann er nú soldið freðinn elsku kallinn... En svei mér ef hann er ekki bara sætur þegar hann er búinn að láta klippa hárdruslurnar af!

Ragnheiður Sara syngur um Georgiu hina sætu. Hún er líka eins og hún sé stödd á sjötta áratugnum; málningin og hárgreiðslan, algjört æði! Kjóllinn ekki góður á henni, hún virkar alveg spikfeit í honum. Hvað er með það? En hún syngur þetta vel, það er ekki spurning. Hún virkar þó óvenju andstutt og stressuð. En tæknin kemur sér vel í þessu lagi, hún er alveg að brillera í þessu held ég. Fyndið að sjá Siggu Beinteins dæma hana, Ragnheiður Sara er miklu betri söngkona en hún!
"Þú ert æðisleg!" öskrar Bubbi.

Ingó sukkaði feitt. Ekkert um það að segja annað en það að hann bara swingar ekki.

Ína æðisleg! Hún er geggjuð söngkona, það er bara ekki spurning. Þau gefa henni 10 af 10 mögulegum, ég er sammála því. “Er engin tónlistarstefna á þessari plánetu sem þú getur ekki sungið, ég bara spyr?” segir Palli. Stelpan er alveg æðisleg, svo er hún svo pollróleg yfir þessu öllu, það er alveg ótrúlegt. Simmi og Jói komust þó að því að hún kynni ekkert að rappa! Góðir...
Það hefur enginn heyrt lagið hennar áður, en glæsilega gert hjá henni.


Alexander. Hvað er gæinn gamall? Ef ég vissi ekki betur og sæi hann bara núna í sjónvarpinu að syngja “I´ve got you under my skin” myndi ég giska á ca 40 ára. No kidding. Hann er með hatt eins og afi Ólafur var alltaf með. Syngur þetta ágætlega og er bara mikill performer held ég. Hann leggur sig allan í sönginn, það er skemmtilegt. Bubbi vill að hann létti sig um 7-8 kíló, hvað er þetta með Bubba og kílóin? Er þetta ekki að ganga aðeins of langt?

Bríet Sunna er rosalega flott. Hún syngur hið seiðmagnaða lag "Fever". Endalaust skemmtilegt lag og stelpan gerði þetta mjög vel. Hún er hot. “Þú er GORDJÖS”! sagði Palli.

Ég held að Ingó hljóti að detta út núna, hann er sá eini sem var ekki góður í kvöld, kannski Snorri. Það vantar svo mikið líf í hann.

Og viti menn: Ingó datt út. En, hann var bara með 100 atkvæðum meira en Ragnheiður Sara, hún var sem sagt næstum dottin út í kvöld. Það er ekki einu sinni hægt að bera þau saman sem söngvara þessi tvö.
Læt þetta duga að sinni.

06 mars 2006

Þessa dagana er það ædolið sem tröllríður öllu. Ég hef alla vega ánetjast því, mér finnst svo gaman að fylgjast með þessu. Sérstaklega því ameríska. Ædol me this: hvernig er eiginlega hægt að gubba upp þessum dómum í lok hvers lags? Hvers lags eiginlega.... :) Nei, í alvöru talað, ætti ekki bara að sleppa þessum dómurum þegar áhorfendur eiga að kjósa? Dómararnir reyna að stýra því hvaða söngvara fólk kýs, það er ekkert leyndarmál. Það klikkaði reyndar alveg í íslenska ædolinu síðasta föstudag, þau voru löngu búin að ákveða að sú sem datt út ætti að vinna keppnina en áhorfendur voru á öðru máli. Mér fannst góð hugmynd að koma með eina samsæriskenningu svona í lok þessa mánudags, bara hressandi, ekki satt?
Annars er ég eiginlega sammála þeim amerísku í kvöld, það er Chris sem rokkar! Ekki spurning. Og ég var ekkert svo óánægð með úrslit þess íslenska síðast heldur.