17 apríl 2005

Nýtt útlit.

Þá hefur hönnuðurinn fengið að leika lausum hala hér á þessari síðu. Útlitið er bara nokkuð svalt, sýnist mér, þó ekki endanlega fullklárað. Nú er hins vegar tímanum aðallega eytt í að lesa félagsfræði, best að reyna að klára þetta próf með einhverri reisn, skárra væri það nú. Það er von mín og trú að nú sé að stytta upp utandyra, hvaðan kemur allt þetta vatn eiginlega? Það er búið að rigna eldi og brennisteini, hundum og köttum og öllu sem manni getur dottið í hug. Mál að linni.
Nú er Robert Plant væntanlegur til landsins í vikunni, tónleikar um næstu helgi, gæti verið gaman að skella sér á þá, það eru víst enn til miðar í stæðum.
Verum góð við hvert annað, eigum rólegan, friðsamlegan sunnudag.

10 apríl 2005

Yndislegur sunnudagsmorgunn, finnst ekki fleirum en mér þeir yndislegir? Fá sér kaffi og ristað brauð með osti, vera í náttfötununum að lesa blöðin, horfa á sjónvarpið, eiga allan heiminn!
Ég rakst á umfjöllun um samtök fyrir "skuldafíkla" í nýjasta hefti Birtu. Hvet alla til að lesa þetta. Þar er m.a. reynslusaga sem ég hygg að æði margir sem komnir eru af unglingsaldri í dag þekkja. Hvernig viðkomandi eignaðist fyrsta kreditkortið bara til að fá afslátt af utanlandsferð, byrjaði strax að skulda alla neyslu. Þegar kom að mánaðamótum átti kortafyrirtækið öll launin, o.s.frv. Greinarhöfundur (ekki nafngreindur...) segist hafa talað við þýskan mann sem hér var staddur og líst fyrir honum hvernig landinn hagar sínum fjármálum, t.d. að algengt væri að fólk tæki lán í einum banka til að greiða lán í öðrum. Þessu átti sá þýski erfitt með að trúa því slíkt varðaði við lög í hans heimalandi! Væri ekki bara gustuk að setja lög sem gerðu fólki erfiðara að lenda í þessum ógöngum öllum? Ég veit ekki, en hitt veit ég að við erum ekki nógu heilbrigð, almennt talað, í okkar fjármálahugsun. Endilega lesiði greinina og kaupið svo bókina hans Ingólfs H Ingólfssonar, "Þú átt nóg af peningum ...þú þarft bara að finna þá." Þar segir hann meðal annars að fjáhagsvandi sé hegðunarvandi.
Eigum svo góðan sunnudag, nýtum hann til þess sem skyldan býður eða hugurinn girnist, hvort tveggja er gott. Písát.

08 apríl 2005

Kynvillingar?

Jæja, í gær hitnaði heldur betur í kolunum þegar Gunnar frændi Þorsteinsson mætti síra Bjarna í sjónvarpsumræðum um samkynhneigð. Tilefnið lá ekki í augum uppi, trúlega þörf stjórnenda til að blása lífi í þáttinn sinn, það gerist ekkert bitastætt þessa dagana eftir að nýráðinn fréttastjóri Rúv hætti við djobbið og fékk fyrir væna fúlgu í starfslokasamning.
Leikurinn hófst á því að síra Bjarni hellti úr skálum reiði sinnar yfir "andstæðinginn," sem virtist undrandi á reiðinni sem greinilega sauð í blóði sírans. Klerkur enda þekkt prúðmenni í okkar samfélagi. Umræðurnar snerust um það hvort frændi Gunnar væri ekki örugglega ofstækismaður sem hataði homma og hefði komið mörgum þeirra í gröfina með hörðum og vanhugsuðum ummælum sínum. Undrun Gunnars minnkaði ekki þegar í ljós kom að hann var ekki kominn til að etja kappi við sírann einan, nei ónei, í liði með honum voru ekki aðeins annar heldur báðir stjórnendur þáttarins. Það hlýtur öllu metnaðarfullu fjölmiðlafólki að vera ljóst að meiri heiður getur engum í þeirri grein hlotnast hér á landi en þeim sem leggur Gunnar Þorsteinsson að velli í umræðum.
Hvort Páll postuli sagði að menn skyldu ekki brenna í losta til fullorðinna karla eða ungra drengja, hvort menn eiga að setja ritningarnar í sögulegt samhengi, hvort konur eiga að þegja á safnaðarsamkomum (mega þær þá tala í kaffinu á eftir?), er þetta það sem allt snýst um? Hvað er að marka ritningarnar og á hverju byggjum við trú okkar? Þurfum við að mennta okkur í sagnfræði og finna út sögulegt samhengi hlutanna til að skilja það sem ritningarnar segja?
Eitt er víst, Guð er almáttugur og lætur sér annt um alla sína sköpun.