08 apríl 2005

Kynvillingar?

Jæja, í gær hitnaði heldur betur í kolunum þegar Gunnar frændi Þorsteinsson mætti síra Bjarna í sjónvarpsumræðum um samkynhneigð. Tilefnið lá ekki í augum uppi, trúlega þörf stjórnenda til að blása lífi í þáttinn sinn, það gerist ekkert bitastætt þessa dagana eftir að nýráðinn fréttastjóri Rúv hætti við djobbið og fékk fyrir væna fúlgu í starfslokasamning.
Leikurinn hófst á því að síra Bjarni hellti úr skálum reiði sinnar yfir "andstæðinginn," sem virtist undrandi á reiðinni sem greinilega sauð í blóði sírans. Klerkur enda þekkt prúðmenni í okkar samfélagi. Umræðurnar snerust um það hvort frændi Gunnar væri ekki örugglega ofstækismaður sem hataði homma og hefði komið mörgum þeirra í gröfina með hörðum og vanhugsuðum ummælum sínum. Undrun Gunnars minnkaði ekki þegar í ljós kom að hann var ekki kominn til að etja kappi við sírann einan, nei ónei, í liði með honum voru ekki aðeins annar heldur báðir stjórnendur þáttarins. Það hlýtur öllu metnaðarfullu fjölmiðlafólki að vera ljóst að meiri heiður getur engum í þeirri grein hlotnast hér á landi en þeim sem leggur Gunnar Þorsteinsson að velli í umræðum.
Hvort Páll postuli sagði að menn skyldu ekki brenna í losta til fullorðinna karla eða ungra drengja, hvort menn eiga að setja ritningarnar í sögulegt samhengi, hvort konur eiga að þegja á safnaðarsamkomum (mega þær þá tala í kaffinu á eftir?), er þetta það sem allt snýst um? Hvað er að marka ritningarnar og á hverju byggjum við trú okkar? Þurfum við að mennta okkur í sagnfræði og finna út sögulegt samhengi hlutanna til að skilja það sem ritningarnar segja?
Eitt er víst, Guð er almáttugur og lætur sér annt um alla sína sköpun.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home