06 mars 2005

Reykjavíkurflugvöllur.

Mikið skelfing er ég orðin leið á þessum umræðum um Reykjavíkurflugvöll. Sömu mennirnir koma saman í sömu sjónvarps- og útvarpsþáttunum, árið út og inn undanfarin ár og rökræða um það hvort völlurinn á að fara eða vera. Mér leiðist ekki þegar menn skiptast á skoðunum um hluti sem skipta okkur öll máli, nauðsynlegt að láta ráðamenn svara fyrir ákvarðanir sínar. Nauðsynlegt að láta sem flestar raddir heyrast. En í þessu máli sitja alltaf sömu mennirnir á sunnudögum í umræðum á 2 sjónvarpsstöðvum, drukku of marga bjóra á pöbbunum í 101 á laugardagskvöldið, og ergja sig yfir því að fá ekki að byggja í Vatnsmýrinni. Þröngsýni þessarra 101 greyja er farin að verða frekar þreytt, afturhaldsseggir af verstu gerð. Við skulum öll þjappa okkur í kringum höfnina og tjörnina, alls ekki vera að búa til "sveitaborg" eða búa til fleiri hverfi. Við höfum svo fínt hverfi í 101, hvað eru menn að æða upp að Rauðavatni, Úlfarsfelli, Rjúpnahæð? Eru menn með réttu ráði? Ég legg til að þessi grey fari að taka lopahúfurnar ofan, hoppa upp í strætó og fara í sight seeing tour um okkar fallegu borg. Hér í Breiðholti, Grafarvogi og Grafarholti býr stór hluti Reykvíkinga sem hefur ekki nokkurn áhuga á því að flytja niður í Kvos. Er ekki mál að linni? Ef ég heyri Hallgrím Helgason tala einu sinni enn um "leiðindahverfin" sem er boðið upp á hér í austurhluta borgarinnar þá gríp ég til aðgerða. Skrifa jafnvel harðort bréf. Þá mega menn fara að vara sig!

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Mikið skelfing er ég orðinn leiður á þessari forsíðu hér maður. Nýtt blogg...núna!

miðvikudagur, 23 mars, 2005  

Skrifa ummæli

<< Home