10 apríl 2005

Yndislegur sunnudagsmorgunn, finnst ekki fleirum en mér þeir yndislegir? Fá sér kaffi og ristað brauð með osti, vera í náttfötununum að lesa blöðin, horfa á sjónvarpið, eiga allan heiminn!
Ég rakst á umfjöllun um samtök fyrir "skuldafíkla" í nýjasta hefti Birtu. Hvet alla til að lesa þetta. Þar er m.a. reynslusaga sem ég hygg að æði margir sem komnir eru af unglingsaldri í dag þekkja. Hvernig viðkomandi eignaðist fyrsta kreditkortið bara til að fá afslátt af utanlandsferð, byrjaði strax að skulda alla neyslu. Þegar kom að mánaðamótum átti kortafyrirtækið öll launin, o.s.frv. Greinarhöfundur (ekki nafngreindur...) segist hafa talað við þýskan mann sem hér var staddur og líst fyrir honum hvernig landinn hagar sínum fjármálum, t.d. að algengt væri að fólk tæki lán í einum banka til að greiða lán í öðrum. Þessu átti sá þýski erfitt með að trúa því slíkt varðaði við lög í hans heimalandi! Væri ekki bara gustuk að setja lög sem gerðu fólki erfiðara að lenda í þessum ógöngum öllum? Ég veit ekki, en hitt veit ég að við erum ekki nógu heilbrigð, almennt talað, í okkar fjármálahugsun. Endilega lesiði greinina og kaupið svo bókina hans Ingólfs H Ingólfssonar, "Þú átt nóg af peningum ...þú þarft bara að finna þá." Þar segir hann meðal annars að fjáhagsvandi sé hegðunarvandi.
Eigum svo góðan sunnudag, nýtum hann til þess sem skyldan býður eða hugurinn girnist, hvort tveggja er gott. Písát.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home