Árið 1975 (ef ég man rétt) leit dagsins ljós "nýtt óháð dagblað." Þetta var spennandi, sú sem þetta skrifar var þá í menntaskóla, það var haust, ég var að vinna í bóksölunni, veturinn að byrja og fullorðna lífið framundan. Blaðið lofaði góðu, var svo ferskt við hliðina á Tímanum, Þjóðviljanum, Alþýðublaðinu og Mogganum, var óháð þessum gömlu flokkum. Ekki leið þó langur tími áður en í ljós kom að blaðið var óháð fleiru en þessum leiðinda stjórnmálaflokkum. Það reyndist óháð öllu sem kalla mætti siðferðislega ásættanleg fréttamennska, fjallaði mjög "frjálslega" um menn og málefni sem efst voru á baugi í þá daga. Það vill svo til að sú ömurlega fréttamennska (ef það er kallað það) sem þar tíðkaðist snerti persónulega mig og mína nánustu og því birtist kannski einhver biturleiki í þessum pistli. En það er aukaatriði, það sem er verst í þessu máli er að frá þeim tíma höfum við flest þroskast og vitkast (mismikið kannski...) en dagblaðið sem fæddist þetta haust fyrir 30 árum hefur ekkert breyst! Í gegnum tíðina hefur það skipt um eigendur, nafnið nokkrum sinnum fengið ný blæbrigði, en í dag eru skrif þess lélegri en fyrir 30 árum ef eitthvað er.
Ég á enn fyrsta eintakið af þessu einhvers staðar í geymslunni, það fer í ruslið ef ég finn það. Það hét Dagblaðið fyrir 30 árum, heitir DV í dag.
Ég á enn fyrsta eintakið af þessu einhvers staðar í geymslunni, það fer í ruslið ef ég finn það. Það hét Dagblaðið fyrir 30 árum, heitir DV í dag.