08 júní 2009




Fyrir fjórum mánuðum setti ég síðast inn færslu hér, nú er sumarið komið og ég í fríi í tæpar tvær vikur. Það er yndislegt, alltaf gott að geta hvílt sig eftir veturinn. Ömmustelpan mín er að verða 10 mánaða, fallegasta barn sem hefur fæðst á síðustu árum. Svo er hún broshýr og skemmtileg og mjög hraust og heilbrigð. Hvað er hægt að biðja um meira??






Núna um helgina fór ég í göngu á Eyjafjallajökul, það var hreint yndislegt. Fallegt veður að mestu leyti, rigndi þó á niðurleiðinni. Goðasteinn heitir þar sem við enduðum uppi, það er stærðar grjót sem er hulið ís. Það var virkilega tígulegt að sjá það blasa við allt í einu, úr fjarska virkaði það ekki nærri eins stórt. En undur falleg sjón.


Á neðri myndinni er ég búin að sigr´ann, afskaplega stolt af því. :)














06 febrúar 2009







Ég sé þegar ég er að kíkja hér á síðustu blogg sé ég að ég hef gjarnan sest niður þegar einhverjir viðburðir hafa verið í lífi mínu;Símon og Vánia giftu sig, ég fór til Hawaii, Bella bættist í hópinn o.s.frv. Þá uppgötva ég mér til skelfingar að stærsti viðburður síðasta árs hefur ekki komist á blað hér, ekki verið minnst á hann einu orði! Nema í bloggfærstlu frá Hawaii sagðist ég hafa verið að fá góðar fréttir en sagði ekki hverjar. Kannski eru báðir lesendur mínir núna orðnir forvitnir... :o) En, þessi einstæði viðburður í mínu lífi var litla ömmustelpan mín sem fæddist 14.ágúst og heitir Daníela Díana Lopes Símonardóttir. Sjón er sögu ríkari..

07 ágúst 2008


Nú er orðið heldur langt síðan hér hefur birtst ný færsla, best að skutla einni stuttri inn. Síðan ég kom heim frá Maui í mars hefur auðvitað ýmislegt á dagana drifið, fyrst þarf að nefna nýjan fjölskyldumeðlim. Hún nánast bankaði að dyrum í lok aprílmánaðar, var þriggja mánaða hvolpur sem vantaði heimili. Henni var auðvitað tekið opnum örmum og hefur á þeim tíma sem er liðinn síðan vaxið og dafnað. Hún hefur rúmlega tvöfaldað þyngd sína og er næstum því farin að hlýða líka, en því átti ég nú ekki von á svona framan af. Litla dúllan er nefnilega eilítið baldin. :)

En segjum þetta bara gott í bili, meira síðar.

03 mars 2008

Maui.


Nú má segja að lífið leiki við mann. Ég fékk fréttir í gær (ég veit ekki enn hvort ég má segja frá því..) sem breyttu annars yndislegu sólskini hér í enn fallegri hluti. Ég er auðvitað stödd á Hawaii, var að koma af ströndinni með yndislegum frænkum mínum og börnunum þeirra, búin að slást við strákana þeirra í sjónum og hér heima er systir mín búin að vera að undirbúa kvöldverð mánaðarins. Lyktin er alla vega dásamleg. :o)
Svo ég segi bara aloha í bili, meira seinna.

30 desember 2007

Áramótadramablogg ;o)


Nú er árið að verða liðið í aldanna skaut og allt það. Þetta hefur í heild verið hið besta ár fyrir mig, ekki get ég kvartað. Það endar á svolítið dramatískan hátt í einkalífinu, en það er ekkert sem við lifum ekki af. Ég má bara til á þessum tímamótum að þakka Guði opinberlega fyrir þetta góða ár.
Gleðilegt nýtt ár to y´all!

09 júlí 2007












07.07.07.

var brúðkaupsdagurinn mikli um allan heim. Símon minn og Vánían hans giftu sig þá og dagurinn var mjög gleðilegur og vel heppnaður í alla staði. Þau gerðu góða hluti í undirbúningnum, sáu um þetta mest allt sjálf og stóðu sig með stakri prýði. Nú eru þau í Borgarfirðinum að njóta hveitibrauðsdaganna, og njóta þess vonandi alla vikuna. Ekki er alla vega veðrið að spilla fyrir þeim.


Alltaf er nú jafn yndislegt að fara í frí, vakna þegar maður vill, eyða deginum bara eins og manni dettur í hug. Hreinasta unun. Svo verður örugglega bara gaman að koma í vinnuna aftur, ekki vantar sennilega verkefnin þegar að því kemur... Þetta sumar er annars bara búið að vera gargandi snilld, veðrið algjör draumur dag eftir dag.

Annað kvöld mætast svo KR og Valur í bikarkeppninni í Frostaskjóli. Ekki læt ég mig nú vanta þangað, hef nú ekki verið þekkt fyrir það hingað til. :o) Áfram Valur!

24 júní 2007

Góð helgi á enda runnin... nú styttist í að maður taki sér eitthvað sumarfrí. Kominn tími til. Samt nóg að gera í vinnunni, ekki vantar það.
Evrópuleikurinn fór illa í gær, Valsmenn töpuðu fyrir írsku slagsmálahundunum. Það skemmtilega á vellinum voru stuðningsmenn Íranna, ekki hægt annað en hafa gaman af þeim. Hér kemur hugmynd: Íslensk íþróttafélög senda stuðningsmenn sína á námskeið hjá svona alvöru stuðningsmönnum. Þeir gætu tekið lög frá þeim og þýtt og staðfært, kannski fengju þeir svo sínar eigin hugmyndir með tímanum. Við verðum endilega að reyna að þróa okkur í að styðja okkar menn, við erum alveg eins og aular í stúkunni.

I bid u good night.