29 janúar 2007

:(


Sælt veri fólkið. Ekki verður nú sagt að ég hafi staðið við fögur loforð frá því ársbyrjun um að vera dugleg að blogga. En, nú hreinlega verð ég að láta reyna á bloggið sem þerapíu. Ég er svo niðurdregin að ég næ mér hreint ekki á strik, ástæðan er sú að systir mín, sem býr fáránlega langt í burtu og er búin að vera hér hjá mér í tæpar 3 vikur, (ég búin að eyða flestum stundum með henni í þann tíma) flaug af landinu í dag. Það var ótrúlega dimmt úti þegar ég hljóp í Reykjanessslagviðrinu út í bíl við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Kökkur í hálsinum alla leiðina í bæinn þó ég hamaðist við að hugsa gleðilegar hugsanir; t.d. eins og þá að að ári fer ég að öllum líkindum til hennar! Svo reyndi ég að fókusa á augljósar staðreyndir eins og þá að við tölum saman í gegnum msn nokkrum sinnum í viku, höfum oft vefmyndavélar í gangi heilu klukkutímana um helgar og fylgjumst með hvor annarri og umferðinni um heimili hvor annarrar. En svona geta tilfinningarnar farið með mann, maður stýrir ekki alltaf svo glatt hvernig manni líður.
Svei mér þá, ég held mér líði strax betur. Án gríns.
Sjáumst fljótt systir!

07 janúar 2007

2007

Nú er double-o-seven árið komið, jólin meira að segja búin. Það er nú alltaf ágætt líka, svona eins og að fara í skemmtilegt frí og koma svo heim aftur. Á hverju ári reyni ég að láta mér detta einhver leið í hug til þess að taka ekki þátt í jólabrjálæðinu hér á landi, ég er ekki frá því að það rofi til í þeim efnum. Ekki eyddi ég miklum tíma eða peningum í ruglið, svo mikið er víst. En þetta verður víst hver og einn að finna út fyrir sig.
Þegar ég hugsa um síðasta ár og hvað gerðist markverðast þar, þá er það "mælanlegasta" sem gerðist hjá mér starf Gospelkórs Rvíkur. Það verður sífellt skemmtilegra með hverju árinu, nýjum hugmyndum og verkefnum virðast engin takmörk sett, það er sérstök blessun að taka þátt í þessu. Það er meira að segja aðeins búið að nefna hugmyndir um næstu verkefni og það hljómar mjög spennandi. Ég mun örugglega skrifa meira um það hér þegar málin skýrast. So, stay tuned! :o)
En það sem er næst á dagskrá er heimsókn stóru systur frá Hawaii, hún er að koma miðvikudaginn 10. og stoppar í 2 vikur. Nú eru liðin 5 ár síðan hún kom síðast svo það er mikil tilhlökkun að fá hana. Ég er sú eina úr fjölskyldunni sem hef farið út til hennar í millitíðinni. Sennilega verð ég sú næsta sem fer út líka, ef að líkum lætur og allt gengur upp.
Þá bara setjum við punktinn hér og lofum öllu fögru um framhald á bloggun.