19 ágúst 2005

Tætum og tryllum

Á að leyfa samkynhneigðum að gifta sig í kristnum kirkjum? Er enginn að fá leið á þessu endalausa japli og jamli um sömu hlutina? Ég trúi ekki´mínum eigin eyrum lengur þegar fjölmiðlaspjátrungarnir kalla á Gunnar frænda Þorsteinsson aftur og aftur og aftur og reyna að fá hann til að samþykkja að allar kynhneigðir manna séu jafn þóknanlegar Guði. Ég skil alls ekki af hverju menn geta ekki látið Gunnar og kirkjuna í friði með þetta mál. Það vill enginn heyra hvað hann hefur að segja, menn heyra ekkert sem hann segir í þessum umræðum, ég þori að veðja að enginn þeirra fjölmörgu sem hafa fengið hann í viðtal til sín gætu útskýrt hans málstað. Er það góð fréttamennska? Mér finnst það ekki. Þarna situr þetta, eflaust annars ágæta fólk, og nær alls ekki pointinu. Hættið að reyna að troða fætinum í skóinn, hann bara passar ekki.

P.s. Nú geta allir komið og hlustað á Gospelkór Rvíkur á Ingólfstorgi á morgun milli kl 15 og 16. Tætum og tryllum!!!

11 ágúst 2005

Tónleikar!

Ég er búin að þeytast um allt á hjólhesti mínum þessa viku og stunda að auki gönguferðir og tai-bo. Mér líður eins og ég sé rosalegt vöðvabúnt, verst að þetta sést alls ekki á mér. Oh well, þetta snýst auðvitað fyrst og fremst um heilsuna, ekki satt? Ótrúlegt hvað maður hefur miklu meiri orku þegar maður er duglegur að eyða henni...
Nú geta aðdáendur gospel tónlistar heldur betur glaðst, því Gospelkór Reykjavíkur verður með stórtónleika í Laugardalshöll 3.september nk. Auðvitað hvet ég alla til að skella sér, miðasala er þegar hafin á concert.is, held ég. Ef það er hálft eins gaman að hlusta á þetta eins og að syngja í kórnum er þetta algjört möst, engin spurning.
Ég er alveg yfir mig rasandi bit á bullinu sem einn þingmaður leyfir sér að æla yfir þjóðina í fjölmiðlum. Þegar maður er farinn að nálgast fimmtugt hefur maður þó marga fjöruna sopið í þeim málum, ekki alltaf mikið vit í því sem þetta fólk lætur hafa eftir sér. En ég held að það sé kominn tími til að menn fari að halda utan um perlurnar sem Pétur Blöndal lætur út úr sér, það er örugglega hægt að gefa út bók með bullinu hans. Ekki síður en Dan Quale á sínum tíma. Skrítið að hugsa til þess að það skuli vera við völd í landinu fólk eins og Pétur, gefur manni nú ekki mjög notalega tilfinningu verð ég að segja. O jæja, kannski er þetta bara alveg rétt hjá Pétri, maður á bara ekkert að vera að reyna að hamast við að veita sér einhver lífsgæði. Hver þarf sosum að hafa síma, sjónvarp, útvarp, bíl, íbúð útaf fyrir sig? Það er þannig sem maður fer að því að lifa af 100 þús krónum á mánuði segir hann. Eiga ekkert og skulda ekkert. Ég er bara að reyna að muna hvað maður kallar svoleiðis fólk.