23 febrúar 2006

Ljótt er að heyra, Chelsea tapaði fyrir Barcelona. Sjálfsmörk og rautt spjald, hvað er að gerast? Ég er svo aldeilis yfir mig bit! Og með yfirbit... Svona gerast kaupin á eyrinni, bót í máli að Eiður spilaði vel.
Ég er óðfluga að jafna mig í andlitinu, í fjarska er auðvelt að misskilja lookið fyrir hitlersskegg, bara til að koma í veg fyrir kjaftasögur þá er ég ekki gengin í neinn nýnasistaflokk og á ekki eftir að gera og er ekki að reyna á nokkurn hátt að líkjast litla, brjálaða Austurríkismanninum. Á mínum vinnustað var búið að ýkja svo sögurnar af byltu minni um helgina að sumir töldu að ég væri illa handleggsbrotin og eitthvað þaðan af verra. Svona magnast sögurnar í meðförum, við þekkjum það, og sei sei já.

22 febrúar 2006

Oprah blessunin hefur nú fengið sérfræðing í þátt sinn til að fræða okkur um fuglaflensuna. Lýsingin á einkennum er ekki hugguleg, það sem er kannski ennþá verra er að þjóðir heims virðast ekkert hafa gert til að undirbúa þetta. Hvernig stendur á því? Er ekkert skrítið við það að heimsbyggðin með alla sína þekkingu og tækni hefur ekki eytt tíma eða fjármunum í að undirbúa sig fyrir að takast á við þetta. Þetta hljómar eins og pestin muni bara flæða yfir okkur öll á svipaðan hátt og á tímum spænsku veikinnar. Ekki einasta höfum við ekki næg lyf eða tíma til að framleiða þau, við hefðum ekki pláss í sjúkrahúsum eða leiðir til að flytja matvæli milli staða eða ....
Hvað er að gerast? Eru stjórnvöld okkar svona gagntekin af því að græða peninga og moka þeim í vasa sína og vina sinna að þeir láta sig slík smámál engu varða?
Alvarlegt blogg í dag.
Ég er annars að jafna mig í andlitinu eftir að hafa kysst gangstétt frekar harkalega um helgina. Á að vísu eftir að fá tönn í staðinn fyrir þá sem ég skildi eftir, en það stendur til bóta áður en langt um líður. Þakka Guði fyrir að ekki fór verr.

19 febrúar 2006

Heilir og sælir kæru lesendur. Það verður fröken Silvía Nótt sem fer fyrir okkar hönd í Eurovision í Grikklandi í vor. Ekki er hægt að neita því að það verður spennandi að sjá hvernig henni reiðir af, hún er, ef ekkert annað, ferskur vindur inn í þessa keppni. Ég skal hundur heita ef hún á ekki alla vega eftir að vekja mesta athygli keppenda og öll athygli er góð í þessum bransa, ekki satt?
Hvernig líst mönnum annars á það mál? Látið mig heyra í ykkur.

02 febrúar 2006

Þá er það orðið ljóst, við enduðum í 7.sæti á EM í handbolta. Kostnaðurinn var einn kjálkabrotinn leikmaður, einn með löskuð rifbein og einn með heilahristing. En mikið rosalega börðust okkar menn, ég skal sko mæta og klappa fyrir þeim ef það verður tekið á móti þeim með viðhöfn þegar þeir koma heim. Og ekki síst fyrir Viggó, ég tek hattinn ofan fyrir honum. Húrra!