25 september 2005

Þá er Jollinn minn bara giftur maður. Það er ótrúlegt hvað maður upplifir margskonar tilfinningar við slík tækifæri, mér hefði bara aldrei dottið það í hug. Ég var einmitt að segja við einhvern á dögunum hvað allar þessar tilfinningar kæmu mér endalaust á óvart. Það er eins og ég reikni alltaf með að nú sé maður búinn með flestar upplifanir lífsins og héðan af syndi maður lygnan sjó tilfinningalega. En, nei ónei, það er sko öðru nær. Stöðugt eitthvað nýtt til að upplifa. Og mikið er það nú gleðilegt í sjálfu sér, sennilega verður þetta þannig sama hvað maður lifir lengi.
En brúðkaupið var yndislegt, sonur minn svo fallegur og brúðurin hans líka. Ég er alveg óendanlega stolt móðir.

21 september 2005

Það styttist óðum í brúðkaupið, undirbúningur í hámarki. Það var æfing í kirkjunni í dag, hún gekk bara vel, ég er viss um að þetta verður mjög fallegt brúðkaup. Ég get alla vega lofað því að það hefur ekki sést flottari brúðgumi heldur en hann sonur minn, hann var að prófa fötin sín í kvöld og hann er bara stórglæsilegur!
Sorrý Ágústa mín, ég hélt það væri öllum augljóst að Símon minn er sá sem á linkinn "Monsablogg" hér til hliðar, fyrir neðan "Frumburðarblogg" sem er bloggið hans Daníels.
Það getur vel verið að ég hringi í þig Árný mín og biðji þig að hjálpa mér að renna upp kjólnum, það er ekki alveg hlaupið að því.
Later people...

17 september 2005

Tíminn er fljótur að liða, eða eins og maðurinn sagði: "time flyes when you´re having fun!" Lífið er grín og gaman, alltaf eitthvað til að takast á við.
Víkingar komust í gærkvöldi upp í efstu deild, húrra! Þeir unnu Völsung 2-0 í Víkinni við vægast sagt ömurlegar aðstæður til knattspyrnuiðkunar. Völlurinn var eins og lítið stöðuvatn, boltinn spýttist hvert sem verða vildi, leikmenn runnu marga metra ýmist standandi eða liggjandi á maganum. Frumburðurinn skoraði fyrra mark heimamanna úr víti, öruggur eins og ekkert annað kæmi til greina. Það var stolt fjölskylda í stúkunni (og pabbi á hliðarlínunni) sem stökk á fætur og fagnaði. Svo skellti hann sér með sinni heittelskuðu til Stokkhólms í morgun þar sem þau ætla að eyða helginni í boði vinnuveitenda hans. Þau eru flutt í betra húsnæði, það fer vel um þau í Furugrund þar sem þau hafa nú litla holu fyrir sig þar til annað kemur í ljós.
Svo er stóri dagurinn að nálgast hjá örverpinu, brúðkaupið er næsta föstudag og spennan í algleymingi. Undirbúningur gengur vel og enginn farinn á límingunum ennþá, lof sé Guði. :)

11 september 2005

Ég keyrði norðan yfir heiðar í dag eftir skemmtilegustu helgi sem ég hef átt lengi. Henni var eytt í höfuðstað norðurlands með 7 vinnufélögum, konum úr "ábyrgðadeild" Íslandspósts. Einstaklega skemmtilegar konur og hláturmildar, við hlógum svo mikið að sumir fengu harðsperrur í magann. Vorum allar saman í 3ja herbergja íbúð Póstmannafélagsins, deildum einu baðherbergi og vorum út um allt með snyrtidót og töskur og skó og drasl, en lentum ekki í neinum árekstrum! Náttfatapartí kvölds og morguns, endalaust át og tóm vitleysa. Mikið svakalega var þetta gaman!
Eini mínusinn var að Daníel minn átti stórleik á móti Haukum sem ég missti af, Víkingar eru nokkurn veginn þar með búnir að tryggja sér sæti í úrvalsdeild að ári. Til hamingju með árangurinn Dansi minn og Víkingar allir, well done. Nú fer ég að sofa, verð að vinna upp svefnlétta helgi...

P.s.
Símon minn er bloggari ársins (valið fór fram hér og nú), hvet alla til að kíkja á pistlana hans, þeir eru frábærir.

05 september 2005

Ótrúlegt en satt, tónleikarnir eru búnir. Stórtónleikar Gospelkórs Rvíkur í Laugardalshöll voru í gærkvöldi og það tókst að fylla húsið af fólki! Eitthvað nálægt 2500 manns lögðu leið sína á laugardagskvöldi til að hlusta á gospeltónlist. Ef einhver hefði sagt mér fyrir 2-3 árum að þetta myndi gerast hefði ég brosað út í annað og hugsað um hvað oft ég hef heyrt hina og þessa spádóma og sýnir og hvað það nú allt heitir. Ég verð að játa að ég er ekki of trúuð á það þegar fólk segir mér slíka hluti. En, fyrrum forstöðumaður og stofnandi Vegarins sagði okkur stundum að hann sæi fyrir sér fólk fylla Laugardalshöllina, hann sagðist sjá fyrir sér mikinn fjölda bíla allt í kring. Skyldi það hafa verið spádómur? Hver veit. Eitt er alveg víst, nú er brotið blað, við sjáum að þetta er hægt. Þetta er engin tilviljun, nú er farin af stað skriða, það á fleira eftir að fylgja í kjölfarið. Biblían segir okkur að Levítarnir, tónlistarmennirnir, fari alltaf fyrstir í orrustu. Það var Guðs ráðstöfun þá og það hefur ekkert breytst. Nú fer þetta að verða spennandi!